Thursday, October 30, 2008

Upp og niður

Mér finnst mjólk vond og hef ekki drukkið hana síðan ég fékk vit. Ég þarf því ekki að sakna þess að þamba mjólk. En í ísskápnum er rjómaostur sem hefur sjaldan verið eins girnilegur.

Ég er búin að liggja á netinu og viða að mér upplýsingum. Niðurstaðan er að það er skemmtilegra að hugsa um það sem maður má borða en það sem ekki má borða.

Ég er ekki ennþá búin að skoða allt sem er til í skápunum hérna en ég er búin að kaupa rísmjólk til að nota í matargerð eða bakstur. Keypti ódýrasta mjólkurlíkið sem ég fann í Hagkaup og þakkaði fyrir að vera ekki mjólkursvelgur því þá færi ég á hausinn.

Annars sýnist mér að það eina sem ég þurfi að kaupa í bili sé mjólkurlaust smjör. En ætli ég labbi ekki út úr Yggdrasli með eitthvað fleira í poka á morgun.

Kristinn eldaði í kvöld og steingleymdi að það væru einhverjar sérþarfir í gangi hérna. En ótrúlegt en satt, það var ekkert mjólkurkyns í uppskriftinni. Uppáhalds nautasteik fréttaþulunnar er því algjörlega ofnæmisvæn.

Logi borðaði Nutramigen með bestu lyst í kvöld. Ég blandaði eina mæliskeið í 60 ml og setti pínulítinn púðursykur út í. Notaði blönduna svo til að gera hirsigraut. Þetta var auðvitað þunn blanda en kannski sættir hann sig við þetta í svona skrefum. Annars ætla ég ekkert að vera að stressa mig á þessari þurrmjólk á meðan hann er til í að vera á brjósti. Brjóstamjólkin ætti alveg að duga honum fram að eins árs.

Ég fór í saumó í kvöld og þar var boðið upp á Betty Crocker brownies. Ég las samviskusamlega aftan á pakkann áður en ég fékk mér köku. Svo kom ég heim og fékk bakþanka. Gúglaði og fann þetta mér til mikillar óánægju. Ég hef semsagt innbyrt kúamjólkurprótein í dag. Urr.

No comments: