Friday, November 21, 2008

Sakn

Ég slefaði yfir sjónvarpsauglýsingum í gær.
Ostakörfur, fullur poki af nammi, rjómi...
og ég er ekki einu sinni hrifin af rjóma.

Wednesday, November 5, 2008

Ostur er veislukostur...

En ekki í minni veislu...

Ragna frænka ætlar að koma í heimsókn á morgun. Hún má ekki borða sykur. Eftir að hafa skoðað ótal uppskriftir af sykur- og mjólkurlausum kökum ákvað ég að það væri best að bjóða bara upp á ávexti :S

Logi fékk tvær bólur í andlitið í kvöldmatnum. Hann var að borða kartöflu. Mörg börn fá roða af kartöflum án þess að vera með ofnæmi fyrir þeim. Svo ég er á báðum áttum hvort það sé í lagi fyrir hann að borða þetta. Ég hætti allavega strax að mata hann þegar ég sá að hann var að fá útbrot.

Sunday, November 2, 2008

Ljómandi

Jæja, þetta er farið að venjast. Það munar miklu að þurfa ekki að lesa aftan á allt, ég er farin að þekkja flest sem ég má borða á heimilinu. Prufaði að gefa Loga nutramigen kalt og hann var alveg ánægður með það.

Þegar Garpur var að byrja að borða passaði ég voða vel að hann fengi ekki sykur. Logi hefur fengið mjólkina bragðbætta með sykri og svo keypti ég handa honum nagkex sem er dísætt! Það er bara glatað að sneiða hjá bæði mjólk og sykri. Í suðusúkkulaði og after eight er engin mjólk, bara smá sykur...

Friday, October 31, 2008

Say no more

Rapunzel ólívusmjör 250 gr. 678 kr.
Vega-ice (soyaís svipað magn og 1 stk. emmess ísblóm) 259 kr.

Maður verður þunglyndur.

En það gladdi mig að heimatilbúna pizzan var ljúffeng þótt það væri enginn ostur á henni. Djúsí grænmeti, hráskinka og hvítlauksolía, það þarf ekkert meira.

Logi drakk smá nutramigen úr stútglasi í dag. Aðallega af því að það er svo spennandi að drekka úr svona fínu glasi held ég ;)

Thursday, October 30, 2008

Upp og niður

Mér finnst mjólk vond og hef ekki drukkið hana síðan ég fékk vit. Ég þarf því ekki að sakna þess að þamba mjólk. En í ísskápnum er rjómaostur sem hefur sjaldan verið eins girnilegur.

Ég er búin að liggja á netinu og viða að mér upplýsingum. Niðurstaðan er að það er skemmtilegra að hugsa um það sem maður má borða en það sem ekki má borða.

Ég er ekki ennþá búin að skoða allt sem er til í skápunum hérna en ég er búin að kaupa rísmjólk til að nota í matargerð eða bakstur. Keypti ódýrasta mjólkurlíkið sem ég fann í Hagkaup og þakkaði fyrir að vera ekki mjólkursvelgur því þá færi ég á hausinn.

Annars sýnist mér að það eina sem ég þurfi að kaupa í bili sé mjólkurlaust smjör. En ætli ég labbi ekki út úr Yggdrasli með eitthvað fleira í poka á morgun.

Kristinn eldaði í kvöld og steingleymdi að það væru einhverjar sérþarfir í gangi hérna. En ótrúlegt en satt, það var ekkert mjólkurkyns í uppskriftinni. Uppáhalds nautasteik fréttaþulunnar er því algjörlega ofnæmisvæn.

Logi borðaði Nutramigen með bestu lyst í kvöld. Ég blandaði eina mæliskeið í 60 ml og setti pínulítinn púðursykur út í. Notaði blönduna svo til að gera hirsigraut. Þetta var auðvitað þunn blanda en kannski sættir hann sig við þetta í svona skrefum. Annars ætla ég ekkert að vera að stressa mig á þessari þurrmjólk á meðan hann er til í að vera á brjósti. Brjóstamjólkin ætti alveg að duga honum fram að eins árs.

Ég fór í saumó í kvöld og þar var boðið upp á Betty Crocker brownies. Ég las samviskusamlega aftan á pakkann áður en ég fékk mér köku. Svo kom ég heim og fékk bakþanka. Gúglaði og fann þetta mér til mikillar óánægju. Ég hef semsagt innbyrt kúamjólkurprótein í dag. Urr.

Wednesday, October 29, 2008

Nýir tímar... og ostlausir

Logi fór í ofnæmispróf í gær hjá Birni Árdal. Hann er með mjólkurofnæmi.

Enginn bragðarefur, enginn ostur á pitsuna! Það hvarflar samt ekki að mér að hætta með hann á brjósti strax, þetta er bara tímabil sem ég verð að þrauka. Það er í raun þeim mun ríkari ástæða til að halda brjóstagjöf áfram sem lengst fyrst þetta ofnæmi er í spilinu.

Björn mælti með að ég gæfi Loga Nutramigen sem fyrst því það er svo bragðvond mjólk að það er best að börnin kynnist henni sem fyrst, áður en þau geta myndað sér skoðun á því hvort hún sé vond eða góð.

Ég prófaði að gefa honum úr pela en hann var ekkert spenntur. Hann hefur líka eiginlega aldrei drukkið úr pela svo það er kannski ekki að marka. Prófa að lauma þessu í grautinn næst og sjá hvernig hann bregst við.

En hvað á ég að éta?

Það er einhvers konar mjólk í næstum öllu sem til er á heimilinu. Ég þarf að gera könnun á birgðastöðu og athuga möguleikana.